Yrfillinn á Zanzibar

laugardagur, desember 24, 2005

Jólakveðja...

Klukkan er slegin 18:00 og það er aðfangadagur.

Stemmningin ræður ríkjum og maður veit ekki í hvorn fótinn maður á að stíga. Ég þurrka svitann af enninu og með tilhlökkun í maganum geng fram á gang með væntingar um feita jólasteik í ofni.

Er ég stíg útá gang klæddur sveittum hnébuxum og Arsenal treyju nem ég staðar, loka augunum og dreg djúpt inn andann. Ég sé fyrir mér tindrandi jólaljós og snjóug húsin í nágrenninu en er ég opna augun átta ég mig á því að jólasteikin angar af táfýlu vinnusokkum og sveittum vinnufötum sem liggja á ganginum og úti er 35 stiga hiti og sólskin.

Veruleikinn getur verið skrýtinn stundum.

Mig langar að óska öllum yrfillsmönnum (og konum) gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Johnson Godson, Orri Þór Árbjarnarson, Hamis Seif and Jens Christoffer Butenchøn Lach

Gleðileg Jól og Farsælt komandi Ár frá Landmælingardeildinni á Zanzibar.

Glædelig Jul og Godt Nytår fra Survey Department Zanzibar.

Merry Christmas and a Happy New Year from Survey Department Zanzibar.

Heri Ya Christmas na Mwaka Mpya kutoka Idara Ya Upimaji Zanzibar.

mánudagur, desember 19, 2005

Þolrif...

Ég átti erindi á næsta bæ í gær ogguu... haaa er ég að segja mér að það sé svona langt síðan...

Ok, þarsíðurstu helgi fór ég yfir til Dar es Salaam og náði mér í guide sem átti Land Rover og fór ég með honum á Safari í Mikumi sem liggur ca. 4,5 tíma fyrir utan Dar.

Þetta var all hressandi og bar ég augum hin ýmsu kvikindi sem ég hafði einungis fengið að fylgjast með á Discovery í sjónvarpinu. Þetta fannst mér heillandi og fékk mig til að langa til að sjá meira, og hef ég því ákveðið að fara til Serengeti og Ngorogoro Crater í nokkra daga eftir vinnuslit, því það ku vera aðal sjittið í þeim bransa.

Á ferðaskrifstofu hér í bæ sá ég að það væri meira að segja hægt að fara í loftbelg yfir slétturnar í um 5 metra hæð og sveima yfir hjörðum fíla, sebrahesta og ég veit ekki hvað. Það fannst mér hljóma afar spennandi og er ég að reyna að vinna í því að setja saman einhvern ferðapakka.

Ég gisti á ódýru hóteli í Mikumi en það bætti upp standardinn með því að hafa lítð dýrasafn með alls konar snákum, öpum, krókudílum og skjaldbökum. Þetta var ansi frumstætt dýragsafn og var ekki mikið um öryggiseftirlit sem gerði hlutina bara enn meira spennandi svo maður fékk að ganga um óáreittur og hefði ég þess vegna getað klofað inní gryfjuna hjá krókódílunum og tekið eina létta glímu.

Eitt var ansi magnað við þetta safn, en ég kom á þeim tíma sem snákunum var gefið að borða. Þeim er gefið þannig að litlum saklausum fuglum er sleppt inní búrin hjá þeim (búrin eru ca. 1,5*1,5*1,5m). Þeirra beið aðeins bláköld miskunarsemi náttúrunnar því þegar ég kom að þá sá ég nokkra hressa fugla vappandi um án þess að vita mikið hvað beið þeirra en svo lágu svona 5-6 stykki á víð og dreif útum búrið annað hvort steindauðir eða að berjast með síðustu lífsseiglunni við eitrið sem var búið að höggva þá með.

Ein slangan var kominn gott á leið með að troða í sig einum fugli á meðan að félagi hins óheppna var dottandi í hinu horninu við hliðina á annarri slöngu, greinilega án þess að hafa hugmynd um að það væri kannski ekki góð hugmynd. Þetta var vel súrrealískt en svona er nú náttúran krakkar mínir...

Þessi var algjörlega ótamin...

Ég var annars æði hress í morgun og tók mig aldeilis til og skokkaði í vinnuna ásamt einum nýjum ungum verkfræðingi hérna. Honum fannst það vera nauðsynlegt framtak í því að vera nettur og sýndi mér blákaldann veruleikann með því að benda mér á appelsínuhúðina á lærunum á mér.

Sveit mér þá gott ef ekki kváði við hjá mér við héldum eftir vegum Zanzibar á átt að markinu sem lá 5 km frá upphafspunktinum. Aðeins þremur mínútum eftir að við héldum af stað var mér bjargað af bjöllunni er það byrjaði að hellirigna á okkur.

Þessi langþráða hvíld var velkomin er við skýldum viðkvæmum skrifstofukroppum okkar frá regninu undir stóru mangótréi í vegkantinum. Þetta var sem betur fer aðeins himnasending frá guði til mín og við gátum haldið áfram för okkar 5 mínútum seinna.

Ýmynd atorkunnar fór dvínandi er leið okkar lá lengra eftir götunum er það rann upp fyrir mér að vélknúin farartæki væru oft snarari í snúningum á beinu köflunum. Ég reyndi að halda gleðinni en efrek min enduðu á hálfri leið er vinnufélagi okkar tók upp lemstraðann skokkhaus í Arsenal búningi og ók honum restina að leiðinni.

Það var hrakinn skrifstofuhnakki sem blótaði 5 mánaða setu á skrifstofustól sínum er hann gerði að sárum sínum en uppskeran var fjórar blöðrur á milli baugtá og löngutá.

Svo vogaðist hann til að spurja mig hvort ég ætlaði að hlaupa með á morgun líka, ég sagði meeeeeehh...

mánudagur, desember 05, 2005

Jólakös...

Fyrsti desember síðastliðinn var mér mjög sérstakur. Það gerðist svolítið sem ég hef aldrei upplifað áður og ég held að ég geti staðfest að þeir Íslendingar sem hafa upplifað það séu upptaldir á fingrum einnar handar.

Er ég mætti inná skrifstofuna þennan merka dag fann ég að það var eitthvað í loftinu og Stoffer hafði eitthvað lúmskt glott í andlitinu sem mér reyndist erfitt að reikna út. Ég dró andann djúpt og skimaði í kringum mig og hugsaði aðeins málið. "varstu að reka við" spurði ég hann ákveðinn í rómi.
Hann kvað svo ekki vera, en sagði mér aftur á móti með gleði í róminum að við mættum hlusta jólatónlist í dag. Við erum nefnilega með snilldar Ipod á skrifstofunni og höfum því tónlist til að lyfta okkur upp öðru hvoru. Við höfðum nefnilega sett okkur þá reglu að ekki mætti spila jólatónlist fyrr en 1 des.

Mér leið eins og að ég hafi fengið að opna lítinn jólapakka á undan öllum öðrum þegar við spiluðum fyrsta jólalagið og ég réð engann veginn við mig og bauð Stoffer upp, í "hókí,pókí".

Þeta var ansi sérstakt því hver einustu jól verður maður fyrir vonbrigum þegar búðareigendur þröngva ótímabæru jólaskapi uppá mann í þeirri von um að maður falli í gryfju kaupsæðis. Geta þeir ekki skilið að við viljum bara vera í friði og detta í gírinn í fyrsta lagi þegar jólamánuðurinn gengur í garð.

Þeir gera sér ekki grein fyrir því að maður er ekki lengur með úthald á við börn sem trúa á jólasveininn og að þeirra markaðsfræði geri það að verkum að maður er kominn með leið á öllum jóladiskunum þegar maður ætlar loksins að kveikja upp í jólasetemningunni á aðfangadagkvöld.

Á Zanzibar eru engin merki um að jólin séu í nánd, enda kannski eðlilegt þegar 95% eru múslimar, ekkert jólaskraut, engin jólatónlist og engin tilhlökkun í loftinu.

Ég er því mjög hamingjusamur maður að getað stjórnað mínu jólaskapi sjálfur og hlakka til að sitja einn og yfirgefinn á skítugu hóteli í Austur Afríku á aðfangadag, grátandi yfir einsemd minni með það að vopni að getað horfið inní heim "Annie"og sungið burt eymd mína...

Mynd af jólaskapi:

Alveg satt... (og nýrri hárgreiðslu...)

PS. Bara svo þið vitið hvað ég þarf að ganga í gegnum með þessa nettengingu hérna, þá tók það mig um 20 min að hlaða inn þessari mynd (rétt náði að halda mér vakandi...).

laugardagur, desember 03, 2005

Skilmysingur...

Þar sem ég er mikið fyrir að bulla í manneskjunni rek ég mig oft á hin merkilegustu fyrirbæri og er stundum hissa á því hve vel mér gengur að spila með fólk í nettri steik. Þess konar grín er reyndar oftar en ekki á kostnað náungans en eins og mamman sín segir er hollt hlæja og ef maður gerir mikið af því, þá verður maður gamall.
Þar sem að ég ætla að hlusta á "techno" á elliheimilinu og gefa skít í gömlu dansana ætla ég að koma með örlitla sögu um mann.

Ég var að vinna með einum heimamanni og vorum við að vinna með slagborvél sem á það til að gefa frá sér hávaða í kringum 90 db. Eins og hver maður veit er æskilegt að verja eyrun í þeim tilvikum og er hægt að nota til þess hin ýmsu tól.

Eða svo hélt ég.

Ein handhægasta útgáfan er í formi gulra tappa sem þenjast út inní eyrunum og þarmeð verja hlustina geng ofþennslu.

Ég hafði verið tillitsamur þennan daginn og kippt með tveimur settum fyrir strákana á meðan á boruninni stóð, og deildi út einu pari út til Franky (goes to Hollywood). Í þeirri andrá sem ég rétti honum tappana uxu á mig horn djöfulsins og einlæg ráðlegging hans sagði mér að leiða mann þennan í villu vegar. Er ég rétti honum tappana sagði ég honum "this goes here" og benti mér í nös.

Kauði var allur að vilja gerður að fylgja öryggisreglum vinnusvæðisins og smeygði töppunum á tilsettan stað og hélt áfram undirbúningi borvélarinnar.

Ég hefði getað átt glaðann dag og unnið með honum svona allan daginn en góði djöfullinn tók völdin og fékk mig til að útskýra tilgang tappana og hlæja örlítið í andlitið á honum...

Þessi mynd var tekin rétt áður en honum bárust tíðindi um misskilning:



Annars erum við Stoffer búnir að vera að vinna mikið undanfarna daga og er ætlunin að hella í sig og á, í kvöld. Hafist verður handa með því að fara út að borða með Claus (tilsyn), hans konu og barni.

Eftir það ku vera ráðlegt að fara að ráðum djöfulsins og sjá hvað fyrir höndum ber...