Fréttir að handan...
Hina helgina mun ég nota til að fara á Safari til Mikumi(býst ég við) í Tanzaníu og mun ég nota 4 daga í þá ferð. Ekki veit ég hvort ég taki einhvern með mér í þá ferð en það er ekki vel liðið að draga fólk með sér í frí, hér ku vera verk að vinna og enginn tími í svoleiðis vitleysu...
Ég þarf einnig að byrja að æfa mig í því að ferðast einn því ég ætla mér að ferðast einn um Afríku í 2-3 vikur áður en ég kem heim. Það verður því ágætt að fá smá smjörþef svo maður fari ekki bara að væla og snáfi heim kallandi á mömmuna sína, þó að hún sé ágæt greyið...
Ég er búinn að nota síðustu 2 sunnudaga í að ná mér í aukin köfunarréttindi en núna telst ég til advanced diver sem gerir mér kleift að kafa niður á 30 metra.
Fyrsta sunnudaginn vorum við fræddir um kórala og fiska Indlandshafins og æfðum okkur í ljósmyndun neðansjávar. Það var mjög gaman að prófa það og komu margar hressandi neðansjávar sjálfsmyndir úr þeirri ferð ásamt öðrum skrýtnum verum...
Síðasti sunnudagur var mjög strembinn þar sem við köfuðum 3 sinnum á einum degi, navigation dive, 30 metra köfun niður á skipsflak á hafsbotninum og næturköfun.
Þennan sama sunnudag vorum við líka afar heppnir með veður en þann dag ringdi eins og hellt væri úr fötu allan daginn sem gerði manni erfiðara um vik og var maður hundblautur og kaldur á bátnum á leið til og frá köfunarstöðum. Þessi dagur er mesti rigningardagurinn sem hefur hérna síðan ég kom hingað og var smá sýnishorn af rigningartímabilinu sem koma skal í apríl mánuði.
Maður var búinn að gera sér í hugarlund að það sé alls staðar betra veður en á Íslandi og er maður sífellt að kvarta en þvílík var rigningin að Snati neitaði að fara út. Ég get því ímyndað mér að það sé erfitt tímabil fyrir heimamenn að standa það af sér því það er ekkert grín að fara út í svona lagað.
Annars var ég að setja enn eitt heimsmetið hér á Zanzibar en það felst í pökkun. Jú, sveitalingurinn er bara eiginlega búinn að pakka og það 2 dögum áður en lagt verður í hann til Dar. Er þetta merki um spenning og hressleika yfir því að fá frí frá vinnu en þegar ég lít á þetta frí þá finnst mér það hálf kjánalegt. Ég fæ frí föstudag laugardag og sunnudag,,, það er náttúrulega bara grín miðað við það sem maður er búinn að vinna, en við skulum ekki skemma stemninguna og höldum hressleikanum...
Mig langar að afsaka andleysi í bloggskrifum hér, og er ég að vona að þessi för mín út í heim næstu helgi muni kveikja neistann aftur. Ég kenni um þreytu og tilbreytingaleysi, en við skulum vona að ég nái að slá einhver heimsmet og framkvæma einhverjar rannsóknir á meðan að þessu stutta stoppi í Dar es Salaam stendur,
Veriði sveit...
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home