Yrfillinn á Zanzibar

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Lítil rolla...

Mig langaði bara að smella þessari frábæru mynd sem ég náði af einni stúlkukind inní miðju slumbinu í Stone Town. Hún er gott dæmi um það hvernig litlar stúlkur hérna á Zanzibar eru klæddar. Ég er oft búinn að standa á öndinni yfir því hvernig þær eru allar klæddar í þvílíka prinsessukjóla. Þetta eru hversdagsföt hérna og á götunum eru fátækustu stúlkurnar klæddar slitnum og skítugum prinsessukjólum sem hanga utan á þeim.

Ég fór að velta því fyrir mér hvað mæðurnar gerðu við dætur sínar þegar ætti að fara í veislur og svoleiðis þegar þær notuðu sparikjólinn dætra sinna sem hversdags föt. Einn góðann veðurdag fékk ég að sjá hvernig þær fóru að.

Þegar ramadan lauk hérna á Zanzibar klæddu heimamenn sig í sitt fínasta spúss og héldu veisluhöld í fjóra daga. Það var alveg magnað að keyra eftir götunum og skoða fólkið því allir voru klæddir í mjög litrík föt með blöndun af litum sem ég hafði aldrei séð áður.

Þarna gengu mömmurnar í sínu fínasta dressi meðfram moldarstígunum með uppstrílaðann barnaskarann á eftir sér. Nú voru hversdags prinsessukjólarnir fallnir í skugga sparifatanna sem prýddu göturnar hvert sem maður leit. Nú voru mæðurnar búnar að toppa þetta með að klæða þær í splunkunýja og nýstraujaða prinsessukjóla sem voru svo hreinir að þeir virtust sjálflýsandi. Einnig voru þær búnar að setja í þær mismunandi hárgreiðslur sem voru skreyttar með litríkum hárteygjum og blómum. Svo var það áhugavert að það voru engir tveir kjólar eins.

Alveg frábært að sjá hvað þeir nota litina mikið og það fer þeim einhvern veginn betur að klæðast litum en hvíta manninum. Við erum að tala um að litirnir tóni betur við blökkumanninn...

Þetta er samt algjört “had to be there” en ég vona að þessi mynd gefi smá hugmynd um það sem ég er að tala um...

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Fréttir að handan...

Mér er loksins búið að takast að kría út frí hjá vinnuveitandanum . Ég er búinn að fá leyfi til að taka tvær langar helgar, eina ferð til Dar es Salaam þar sem ég mun fara með Tom (verkstjóri) sem er ungur finni sem talar norsku, nokkuð hress gaur.

Hina helgina mun ég nota til að fara á Safari til Mikumi(býst ég við) í Tanzaníu og mun ég nota 4 daga í þá ferð. Ekki veit ég hvort ég taki einhvern með mér í þá ferð en það er ekki vel liðið að draga fólk með sér í frí, hér ku vera verk að vinna og enginn tími í svoleiðis vitleysu...

Ég þarf einnig að byrja að æfa mig í því að ferðast einn því ég ætla mér að ferðast einn um Afríku í 2-3 vikur áður en ég kem heim. Það verður því ágætt að fá smá smjörþef svo maður fari ekki bara að væla og snáfi heim kallandi á mömmuna sína, þó að hún sé ágæt greyið...

Ég er búinn að nota síðustu 2 sunnudaga í að ná mér í aukin köfunarréttindi en núna telst ég til advanced diver sem gerir mér kleift að kafa niður á 30 metra.

Fyrsta sunnudaginn vorum við fræddir um kórala og fiska Indlandshafins og æfðum okkur í ljósmyndun neðansjávar. Það var mjög gaman að prófa það og komu margar hressandi neðansjávar sjálfsmyndir úr þeirri ferð ásamt öðrum skrýtnum verum...

Síðasti sunnudagur var mjög strembinn þar sem við köfuðum 3 sinnum á einum degi, navigation dive, 30 metra köfun niður á skipsflak á hafsbotninum og næturköfun. Þetta er alveg slatti fyrir óvanan kafara var maður alveg búinn á því og feginn að komast heim í heita sturtu og uppí rúm.

Þennan sama sunnudag vorum við líka afar heppnir með veður en þann dag ringdi eins og hellt væri úr fötu allan daginn sem gerði manni erfiðara um vik og var maður hundblautur og kaldur á bátnum á leið til og frá köfunarstöðum. Þessi dagur er mesti rigningardagurinn sem hefur hérna síðan ég kom hingað og var smá sýnishorn af rigningartímabilinu sem koma skal í apríl mánuði.

Maður var búinn að gera sér í hugarlund að það sé alls staðar betra veður en á Íslandi og er maður sífellt að kvarta en þvílík var rigningin að Snati neitaði að fara út. Ég get því ímyndað mér að það sé erfitt tímabil fyrir heimamenn að standa það af sér því það er ekkert grín að fara út í svona lagað.

Annars var ég að setja enn eitt heimsmetið hér á Zanzibar en það felst í pökkun. Jú, sveitalingurinn er bara eiginlega búinn að pakka og það 2 dögum áður en lagt verður í hann til Dar. Er þetta merki um spenning og hressleika yfir því að fá frí frá vinnu en þegar ég lít á þetta frí þá finnst mér það hálf kjánalegt. Ég fæ frí föstudag laugardag og sunnudag,,, það er náttúrulega bara grín miðað við það sem maður er búinn að vinna, en við skulum ekki skemma stemninguna og höldum hressleikanum...

Mig langar að afsaka andleysi í bloggskrifum hér, og er ég að vona að þessi för mín út í heim næstu helgi muni kveikja neistann aftur. Ég kenni um þreytu og tilbreytingaleysi, en við skulum vona að ég nái að slá einhver heimsmet og framkvæma einhverjar rannsóknir á meðan að þessu stutta stoppi í Dar es Salaam stendur,

Veriði sveit...

mánudagur, nóvember 14, 2005

Skype...

Gleðifréttir, gleðifréttir...

Ég er búinn að komast að því að það er alveg hægt að talast við í gegnum Skype í vinnunni minni. Nettengngin þar virðist vera eitthvað betri og vil ég þá bjóða öllum þeim sem hafa áhuga á að eiga við mig orð að senda mér meil (því ég get ekki tekið við sms'um) og nefna tímasetningu. Ég get talað virka daga eftir kl. 18:30 og eftir 13:30 á laugardögum (Znz time)...

Ég er í smá dílemma hérna þessa dagana. Ég var kallaður inná kontor til Christian (site manager) og var spurður álits á því hvort ég hefði áhuga á því að vera hérna úti í 6 mánuði í viðbjóð og þyggja óskilgreinda launahækkun í staðinn. Ég var ekki alveg tilbúinn til að svara honum þá og þegar og urðum við sammála um að ég mundi hugsa þetta í nokkra daga.

Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera í stöðunni þar sem hjólin eru farin að snúast fyrst af alvöru núna og er ég að fara heim akkúrat þegar að allt er komið í full swing. Ég er farinn að komast betur inní hlutina hérna og er farinn að axla meiri ábyrgð en ég gerði í upphafi (fyrstu 2 vikurnar voru nú bara chill í sólbaði og að koma sér fyrir í rólegheitunum...).

Ég er kominn með mitt fyrsta verkefni sem ég á að útfæra og sjá til þess að verði gert rétt. Ég á að teikna og hanna flotpramma sem á að vera búinn til úr timbri, stáli og tómum olíutunnum (til að halda honum á floti).

Þetta finnst mér mjög spennandi þar sem að þetta er mín frumraun í að reikna hann út, panta efnið, ráðfæra mig við verkstjórana og sjá til að allt fari fram eins og ég vil. Þetta hljómar kannski kjánalega að vera að smíða eitthvað úr gömlum olíutunnum og þið eruð kannski hlæjandi að mér núna, en mér er sama, ég ætla samt að gera það...

Annars er ég þessa dagana að ná mér í advanced köfunar vottorð en það gerir mér kleift að kafa á 30 metra dýpi. Ég fór með Vincent sem er hollenskur gaur sem ég er búinn að kynnast hérna og mun þetta taka 2 sunnudaga með fimm köfunum. Á sunnudaginn næstkomandi förum við í 2 kafanir um morguninn og eina köfun um kvöldið þar sem við munum kafa í myrkri (hljómar scary...)

Verð að fara í háttinn, samviskan er farin að segja mér að fara að sofa,

Endilega hjálpaðu mér með að ákveða hvað ég á að gera í sambandi við 6 mánuði extra, "should I stay or should I go"...

Peace yall...

mánudagur, nóvember 07, 2005

Litli hjálparinn...

Maður er laginn með fólk.

Eftir þessa miklu uppljóstrun Mr. Johnsons, gat ég engann veginn látið staðar numið og látið hann vafra einn í óvissu um hans ósanngjörnu tilvist á þessari jörð. Ég ákvað því að gefa honum markmið í lífinu og eitthvað sem hann gæti trúað á.

Ég fór í tölvuna mína og fann fram eina ágætis mynd af mér frá þeim árum þegar ég var í eiturlyfjunum. Ég prentaði hana út og hengdi fyrir framan skrifborðið hans og sagði honum að ef hann trúði á það, þá mundi það
gerast fyrir hann. Hann var mér afar þakklátur og ég er ekki frá því að það sé farið að spretta aðeins örar núna...
Ein bæjarför með Mr. Mumm (Verkfræðingur) var alveg á mörkunum að fara illa um daginn þegar við vorum að keyra eftir vegum Afríku. Það var ansi mikil umferð eins og oftast er um miðjann daginn og hjólreiðamenn á báðum hliðum sem þrengja veginn yfir í eina og hálfa bílbreidd vegna engra gangstétta.

Allt í einu urðum við varir við sjúkrabíl sem kom askvaðandi á móti okkur og sýndi engin merki um að hægja á sér þrátt fyrir bíla útum allt og engar aðstæður fyrir slíkann akstur. Mr. Mumm rétt náði að sveigja til vinstri í þeirri andrá sem hann keyrði framhjá okkur. Þetta var alveg í það tæpasta og mín viðbrögð voru að halla mér yfir til Mr. Mumm því ég hélt hann myndi keyra inní bílinn. Þegar hann keyði framhjá sleikti hann aftasta hlutann af bílnum og var við það að taka stuðarann af. Þetta var alveg í ruglinu og var ég steinhissa á svona akstri þar sem hann var mjög heppinn að dúndra ekki á afturendann á bílnum...

Maður á erfitt með að bíta í það súra epli að maður er ekki meira virði en moskító fluga hérna þar sem að það er af nógu að taka...

Annars er það að frétta af mér þessa dagana að ég er orðinn ansi þreyttur á því að vera að vinna svona mikið, og er farið að langa til að taka mér nokkurra daga frí. Ég er búinn að tala við stjórann og hann er búinn að gefa mér grænt ljós á að taka nokkra daga í frí og fara á safari í Tanzaníu. Ég er því þessa dagana að velta fyrir mér möguleikunum og þarf að ákveða tímasetninguna...

Meira var það ekki í bili, veriði sæl...

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Trailor Trash...

Einn sveittan vinnudag rann upp fyrir mér ljós...

Ég áttaði mig á því að ég hafi ekki nýtt “Trailor Trash” tímabilið mitt nógu vel á meðan að á því stóð. Vissulega gerði ég mitt til þess að ná þessu eftirsótta útliti með því að safna síðu hári í hnakka eða “mullettu” eins og hún er kölluð af þeim sem til þekkja. Einnig lét ég mér vaxa yfirvaraskegg sem undir það síðasta var farið að þekja efri vörina vel og var farið að gera manni erfitt um vik að bora í nebbalinginn sinn.

Að þessu leyti finnst mér ég hafa staðið við skilmálann en naga mig í handabökin yfir því að hafa ekki verið duglegri að safna að mér hinum mikilvægu aukahlutum sem eiga svo stórann þátt í þessu hlutverki. Vissulega var keypt “Who’s your Daddy” húfan og gerði hún góða hluti í því að gera það trúverðugt en heimurinn hefur að geyma svo mikið af snillingum sem eru sífellt að gefa mér innblástur og þar af leiðandi hálfgerðann bömmer yfir því að hafa ekki farið betur að þeirra ráðum.

Einn dag á Amager hitti ég ágætann mann sem í fyrsta skiptið á æfinni gaf mér löngun til þess að labba að einhverjum sem ég þekki ekki neitt og kaupa af honum fötin. Þetta var maður á þrítugsaldri og var hann búinn að ná flestum af þessum nauðsynlegu fídusum sem “trailor trash” hýsill hefur að geyma. Hann var hins vegar greinilega búinn að þróa þennan stíl í langann tíma og var kominn með fullt hús stiga fyrir aukahluti. Þessi maður var í gömlum fjólubláum ólýsanlegum íþróttabuxum og í renndum “apaskinns” íþrótta jakka af annarri sort sem var upplitaður af alls konar ólifnaði.

Ég þurfti að nema staðar til að átta mig á þessum snillingi og taka smá analiseringu á kauða en áttaði mig fljótlega á því að fas hans benti til að hann var ekki að gera þetta sér til gamans heldur var þetta fulla hús stiga bara hrein heppni. Hann var greinilega ekki kunnugur leikreglunum og klæðnaðurinn því bara einhvað sem hann hoppaði í á morgnana án þess að það væri nokkur “fílosifí” á bak við klæðnaðinn. Þetta var mögnuð upplifun...

Í dag eru tímarnir tvennir og ýmislegt búið að breytast í gegnum tíðina, en það er ekki hægt að segja að það sama gildi um allar mannverur jarðarinnar eins og dagurinn í dag átti eftir að gefa til kynna.

Í gamla daga voru menn á unga aldri ekki taldir með mönnum nema að þeir ættu greiðu við höndina, klára í slaginn ef ætti að taka sig til og fara á ball eða einhverja mikilvæga samkomu.

Í dag eru breyttir tímar og ef svo vill til að það eigi að taka til í haus, verða oftast guðs gafflarnir fyrir valinu, sem eru gríðarlega slæmar fréttir fyrir greiðu framleiðendur sem hafa eflaust séð neikvæðann halla í rekstrargrafinu undanfarinn áratug.

Því til dæmis kom einn mikill snillingur sem ég þekki með mjög skemmtilegt tilsvar þegar ein stúlkukind spurði hvort hann ætti ekki greiðu til að lána sér. Hann leit á hana ansi skrýtinn á svipinn, eins og hann væri ekki alveg viss hvort hún væri að grínast. Þegar honum varð ljóst að svo var ekki sagði hann “já, hún er í rassvasanum mínum”. Þessi setning gefur góða sýn á stöðu fyrrnefndra fyrirtækja í dag...

Af vinnufélögunum mínum eru nokkrir með yfiraraskegg eins og kannski kemur ekki á óvart þegar unnið er með fólki frá landi yfirvaraskeggjanna. Óumdeildir konungar þeirra munu hins vegar vera Rússarnir en það er auðveldara að fyrirgefa þeim vegna stöðu þeirra í heimsmálum. Danir eru hins vegar með þá hnattstaðsetningu og beinann aðgang að upplýsingaflæði að það gerir manni erfitt fyrir að skilja hvað hefur komið fyrir...

Einn af vinnufélögunum lýsti upp daginn minn í dag en hann er með vel snyrt yfirveraskegg og einn af þessum hlédrægu týpum en alveg drullu klár, á því leikur enginn vafi. Að lokinni matarpásunni tyllti ég mér í sófann til að slaka á með hönd á meltunni. Stuttu eftir að ég var sestur gekk hann fram hjá mér þögull en hjákátlegur í fasi. Ég stóðst ekki mátið og í þeirri andrá sem hann í draumkenndum hreyfingum gekk framhjá renndi ég augunum eftir nýstraujuðu niðurmjóu “Clondyke” gulrótarbuxum hans og rak þar augun í grænleita greiðu sem stakk uppúr hægri rassvasa hans. Þessi gleðisýn veitti mér prakkaralegt glott er ég leit hægt til vinstri hliðar, niður á við...

Þessi mikla upplifun gerði það, að í huganum er ég búinn að púsla saman hinum fullkomna rusl aumingja og sé því fáa úrkosti aðra en að hefjast handa við söfnun á síðum hnakka og vænlegri hormottu, flestum sem ég þekki til mikillar gleði...

Eina sem ég þarf að gera er að finna þennan mann á Amager, rífa hann úr fötunum, setja upp húfuna, setja permanent í síttið (þetta var orðið svo agalega flatt þarna í endann eitthvað), setja upp dökk sólgleraugu með gleri á hliðunum og sjálflýsandi gulri rönd efst, kaupa mér greiðu til að smella í rassvasann og síðast en ekki síst, fá mér Elephant bjór í hönd.

Fyrst þá verð ég ósigrandi í þessari sjálfsköpuðu heimsmeistarakeppni...

Það verður gaman að sjá hvernig til hefur tekist þegar aftur verður snúið til Danmerkur í febrúar...

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Ramadan...

Glæsilegt, glæsilegt, gott að vera kominn aftur.
Ég var í smá veseni með að komast inná bloggið til að geta publishað, og var orðinn hræddur um að ég þyrfti að stofna nýjann Blogg-reikning.

Jæja, þó að ég hafi ekki getað publishað undanfarið hef ég ekki slegið slöku við í skrifum mínum og mun ég næstu daga gefa út það sem ég hef skrifað. Verði ykkur að góðu...

Mikil eru tíðindin frá Zanzibar þessa dagana vegna kosninga sem eru í nánd. Kosið verður til forseta á Zanzibar og í Tanzaníu en það er kosið til forseta hérna og í Tanzaníu á sama tíma. Að hafa eigin forseta veitir Zanzibörum örlítið meira sjálfstæði en að tilheyra forseta Tanzaníu.

Fólk frá Zanzibar er frægt fyrir að taka kosningarnar alvarlega og verður oft uppi fótur og fit á eyjunni rétt undir og eftir kosningarnar. Verður oft ástandið svo slæmt að það verða óeirðir á götunum og því ekki skynsamlegt að vera á götum Stone Town. Um síðustu kosningar létu margir lífið í óeirðum og menn greinilega tilbúnir til þess að deyja fyrir málstaðinn...

Nýjustu fréttir herma að forsetisráðherra Tanzaníu hafi látist og hefur því verið ákveðið að fresta kosningunum í Tanzaníu fram til 18 Desember. Sem betur fer verður verður kosningunum ekki frestað hérna og kosið verður á sunnudaginn eins og stóð til. Mikill undirbúningur og aukið öryggi hefur raskað lifnaðarháttum manna undanfarna daga og viljum við því gjarnan ljúka kosningunum af ásamt Ramdan svo við geti tekið ”venjulegt” líf á ný.

Undanfarna daga hefur verið hert öryggi mikið niður á höfninni og er mikið um einkennisklædda og vopnaða hermenn sem vakta innganginn inná höfnina ef eitthvað færi úrskeiðis.

Hermennirnir eru búnir voldugum byssum sem minna á þær sem maður hefur séð í bíómyndum frá annarri heimsstyrjöldinni. Segja sumir ástæðuna fyrir að ekki sé enn búið að hleypa af skoti vera vegna þess að þeir eru hræddir við að byssan springi í andlitið á þeim vegna ryðs í hlaupinu...

Ramadan er búinn að valda miklum niðurskurði á opnunartímum á matvöruverslunum og er opnunartíminn einungis frá 15:00 til 15:30 og frá 21:00 til 21:30. Erfitt hefur verið að venjast því að geta ekki skroppið í verslun til að kaupa sér það sem hugann girnist en þessu verður maður víst að kyngja þegar 95% landsmanna sveltir sig allan daginn og hámar í sig þegar sólin er farin niður. Svo er það þannig að fólk vill ekki einu sinni sjá fólk borða eða drekka á götunni því það er talinn dónaskapur og geri þeim þar að auki erfitt fyrir að fullnægja guði sínum...

Mikið hefur verið um öryggisráðstafanir fyrir okkur sem erum að vinna hérna á höfninni og höfum við verið í sambandi við Danska sendiráðið í Dar es Salaam þar sem þeir hafa gefið út lista til að fara eftir ef ástandið á götum Zanzibar verður slæmt. Þar stendur hvernig bregðast eigi við mismunandi útköllum og gefnir út tveir staðir sem allir eiga að hittast á ef allt fer í bál og brand. Verður spennandi að sjá hvernig fer...

Var að rifja upp eitt ansi skemmtilegt atriði sem átti sér stað í ”Survey Department” gámnum stuttu eftir að Mr. Johnson eða ”Fissekarl” eins og hann kemst ekki hjá því að heita þessa dagana, var byrjaður að vinna hjá okkur.

Hann hafði verið að vinna hjá okkur í ca. þrjá daga og stóð við hliðina á Stoffer og var að gjægjast eitthvað á tölvuskjáinn hjá honum. Stoffer var að útskýra eitthvað og svo þegar hann var búinn þá horfði hann svolítið skarpt á hann og benti honum svo vingjarnlega á að hann hafi gleymt að raka hluta af skegginu á efri vörinni þegar hann rakaði sig í morgun. Stoffer horfði á hann eins og hann hafði lent í þessu sjálfur einhvern tímann og beið átekta eftir þakklæti fyrir ábendinguna.

Mr. Johnson var eitthvað seinn til svara og þögnin var ekki rofin fyrr en ég útskýrði fyrir Stoffer að hann hefði í rauninni ekkert gleymt því, því hann væri eiginlega að safna smá yfirvaraskeggi. Stoffer sem er skeggmikill mjög og gerir ekki mikið útúr því að raka sig, gat engann veginn skilið að hann væri með svona litla lufsu og orðinn þetta 36 ára gamall.

Mr. Johnson tók því með sínu einstaka brosi og innsogshlátri er við Stoffer horfðum hvorn á annan, hlógum hátt og klóruðum okkur ósjálfrátt í punginum.

Seinna leysti hann frá skjóðunni þegar ég fór að pumpa hann um það hversu lengi hann hafi verið að safna ”ekki neinu”. Hann sagðist skilja lítið í þessu öllu saman því hann langaði svo gjarnan að hafa yfirvaraskegg en ekkert gengi með vöxtinn. Hann sagðist vera búinn að bíða þolinmóður í 2 ár og afraksturinn ekki eins og til væri ætlast. Við hlógum hátt, aftur...

Eftir þetta lét Mr. Johnson lufsuna fjúka og ákvað að reyna að nýju, ári seinna eða svo, skynsamlegt það Mr. Johnson...