Yrfillinn á Zanzibar

sunnudagur, október 16, 2005

Lífsmark...

Hæ og Hó...

Ég vildi bara rétt láta vita af mér og tilkynna hérmeð að ég er á lífi.

Sandra er búinn að vera í heimsókn hjá mér síðustu tvær vikur og hefur maður verið að snúast í ýmsu hressandi og ekki gefið sér tíma til að láta heyra í sér, sem er náttúrulega dónaskapur og agalega hvimleitt...

Við áttum alveg frábærar tvær langar helgar á meðan hún var hérna.

Fyrstu helgina fórum við á austur strönd Zanzibar og gistum á frábæru fimm stjörnu hóteli sem kallast Bluebay Beach. Á þeim tíma mesgsugum við staðinn og náðum að okkar mati að gera allt sem okkur langaði til að gera. Við fórum í spa þar sem við vorum nudduð uppúr löðrandi olíu, leigðum mótorhjól og keyrðum um í þorpunum sem lágu stutt frá hótelinu, fórum að kafa við litla eyju við norður Zanzibar og nutum frábærs matar sem okkur bauðst á meðan dvöl okkar stóð. Ég hef aldrei séð jafn mikinn mat og upplifði ég í fyrsta skiptið óánægju yfir því að vera ekki með magafylli á við 200 kíló kvikindi, manni leið eins og maður væri að missa af svo miklu því það var ekki séns að smakka allan þennan mat...

Toppurinn á ísjakanum þessa helgina var hins vegar sá, að eitt kvöldið að mat loknum ákváðum við að taka stutt kalaha (spil með kúlum) á meðan að við kláruðum rauðvínið. Við töldum okkur bæði kunna reglurnar þar sem við höfðum bæði drepið tímann í strætó með því að spila þetta spil í símanum okkar.

Við komumst fljótlega að því að spilið var ekki alveg eins einfalt og við héldum og fékk ég því þá snilldar hugmynd að leita aðstoðar hjá starfsfólki hótelsins. Mér var bent á að ræða málið við einn af "Masai" varðmönnunum sem stóðu fyrir utan hótelið því þetta væri spil sem þeir spiluðu mikið. Þetta fannst mér spennandi enda hafði ég ekki verið svo heppinn að ræða við einn slíkann áður svo ég stökk til og fékk einn æði viljugann til að sýna okkur spilið. Það voru blendnar tilfinningar að sitja með honum við spilið og hafði maður það á tilfinningunni að maður mætti ekki taka vörðinn frá störfum sínum lengi.

Hann átti því miður allan tímann í heiminum og ákvað að byrja á því spila eitt snöggt spil við mig (ca.25 min) þar sem hann sagði mér hvað ég átti að gera sem orsakaði það að hann vann með miklum yfirburðum. Við skildum ekki neitt í spilareglunum og þegar við sögðum honum það, þá hló hann hátt og sagði á sinni döpru ensku "I just want to kill you", as in, rústa mér í spilinu. Þetta var alls ekki fyndið og við bæði orðin snarringluð á því að reyna að skilja þennan mann.

Þetta var ekki búið þarna, því hann lét okkur spila annað spil á móti hvoru öðru þar sem hann fékk að stjórna flestum aðgerðum líka og margítrekaðar tilraunir okkar til að þakka honum fyrir hjálpina lét hann sem vind um eyru þjóta og sat sem fastast. Þegar við loksins náðum að kveðja hann, fór fram á að kennslunni yrði haldið áfram næsta kvöld... "ha, jaaaaááá.... kannski...".

Ég skil ekki enn hvernig við gátum komist inní svona hrikalegann kalaha vítahring með þessum geðveika kennara. Ég verð eitthvað að kynna mér betur þessa masai menn, því þeir komu ekki alveg nógu vel útúr þessari skoðanakönnun. Við sáum hann aldrei aftur...

Seinni helgina fórum við til Dar er Salaam (Tanzania) þar sem við fórum að sjá hvernig tréfígúrur eru búnar til og fengum í leiðinni heimsmeistaratitilinn í prútti (að okkar mati)...

Stundum varð maður hissa þegar maður í nettu flippi bauð 6 Dkr og maður fékk móttilboð uppá 24 Dkr... (ekki meira...) Þá átti maður svolítið erfitt með að halda áfram að prútta af einhverri alvöru en maður lét sig hafa það enda er ég ekki það efnaður að geta greitt niður skuldir þriðja heimsins hvort sem er...

Svo áður er ég vissi var hún flogin heim aftur og við tekur vinnuálag í auknu mæli þar sem Christian (Site manager) er kominn á svæðið og allt á að fara í swing... Nenni ekkert að vinna eftir svona lúxus helgar...

Maður bítur í neðri vörina og vaknar hress í fyrramálið...

4 Comments:

  • hahahahah .. þú ert fyndinn

    By Blogger Nína, at 8:01 e.h.  

  • gott mál... hvernig mótorhjól? :D

    By Anonymous Nafnlaus, at 9:04 f.h.  

  • Þetta var hressandi Honda 250 offroader, alveg í fínu standi sem tók holótta vegi í nefið á ferðinni. Öryggisbúnaðurinn var hins vegar hjálmar eins og eru notaðir á byggingasvæði... Hehe... Hæ mamma...

    By Blogger Yrfillinn, at 10:40 f.h.  

  • Alltaf ertu nú jafn fyndinn gamli. Flott hvað þið náðuð að gera mikið á þessum tíma. Sandra ætlar að kíkja til mín í vikunni og þá fæ ég nú að heyra meira. Hadebra knús Maya

    By Anonymous Nafnlaus, at 1:50 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home