Yrfillinn á Zanzibar

mánudagur, október 24, 2005

Co driver...

Ja hérna, það er sveit mér þá búið að vera mikið að gera hjá sveitalinginum þessa dagana...

Við erum búnir að hrækja í hönd undanfarið strákarnir við vinnslu að Method Statement fyrir Static Load Test, sem nákvæm lýsing á því hvernig eigi að framkvæma þá merku aðgerð. Þessari skýrslu á svo að komast í hendur Supervisorana (Carl Bro) áður en hafist er handa. Þetta er miklu meiri vinna en ég hafði nokkurn tímann gert mér grein fyrir og þarf að vanda orðaval gríðarlega mikið svo ekki liggi á milli hluta hvað sé verið að meina og endalaust verið að leiðrétta og breyta svo þetta liggi sem skýrast fyrir og að það sé farið eftir settum reglum.

Um helgina erum við Stoffer svo búnir að vera undir höfninni á vinnupöllum með tölvubúnað og digital mælara til að mæla hreyfingu á undirstöðum hafnarinnar. Við erum búnir að stilla upp risa tjökkum sem mæla hversu mikið steyptar súlurnar undir höfninni geta borið. Við gáfum súlunni 182 tonna trukk og mældum með þessum búnaði hversu mikið súlan sekkur undir þessu álagi. Þetta eru mikil nákvæmnistæki sem mæla 1/100 úr millimetra og skrá alls konar data sem svo unnið er úr seinna og skrifuð skýrsla um það hvort viðkomandi súla standist uppsettar kröfur.

Þessar mælingar tóku 10,5 tíma því það þarf að fylgja ákveðnu álags prógrammi sem svo eru analiseruð með uppteiknuðum gröfum út frá data tölvunnar og handskráðum niðurstöðum. Þetta er mjög spennandi allt saman og erum við núna að vinna úr niðurstöðum og gera skýrslu sem við ætlum að reyna að skila sem fyrst því það stendur til að mæla næstu súlu á föstudaginn kemur...

Ég vona að þetta skiljist hjá mér og að lesendur séu enn með hugann við efnið, því núna ætla ég að fara aðeins ítarlegra í það hvernig unnið er úr datainu...

Neeee...

Hérna gengur annars lífið sinn vanagang þegar maður er að vinna svona á hverjum degi og kl 05:50 nær maður alltaf að hneggja sig framúr og vekja lítinn sveitahaus sem finnst alltaf gott að lúra aðeins á morgnana og hefur einungis "hvad så" til málanna að leggja. Þá byrjar undirbúningur fyrir nýjann dag og hefst hann með því að spreyja vænum slatta af flugnaeitri undir hendurnar að lokinni stuttri sturtu.

Í einróma þöglu samþykki er svo lagt af stað niður ójafna rykuga vegi með hönd útum glugga til að sækja í svalann vindinn á ferð eftir vegunum. Svona snemma á morgnana eru fáir á ferli en sumir að ranka við sér og það sama á við um hin fjölmörgu dýr sem eiga aðsetur meðfram vegum Stone Town.

Einn morguninn rak ég augun í ringlaðann morgunsúrann skrautfugl sem vaknaði við það að heyra í bíl okkar á leið niður veginn. Hann var staðsettur svolítið frá kannti vegarins en var engu að síður staðráðinn í því að forða sér frá bifreiðinni sem átti leið niður veginn. Eitthvað var hann ekki búinn að ná áttum svona snemma í bítið en þegar við nálguðumst hann, þá fór að færast meiri æsingur í kauða, og fyrr en varði var hann kominn á fulla ferð í öruggt skjól (að hans mati).
Þar sem að það er Stoffer sem keyrir þá náði ég að fylgjast með þessu frá upphafi, en fuglinn kom á harða hlaupum og hljóp inní hurðina á bílnum þar sem Stoffer situr. Stoffer var á þessari stundu á sama leveli og fuglinn og því ekki alveg í standi fyrir svona æsing í morgunsárið. Hann baðaði út höndunum og hlífði hausnum á sér og skildi ekkert hvað væri í gangi, en það gerði ég...

Þetta var alveg gríðarlega hressandi og gat ég hlegið mikið að þessu og hélt þessi atburður mér brosandi alla leiðina í vinnuna, við lítinn skilning frá sætisfélaga mínum sem skildi lítið í þessu öllu saman...

That about summs up my week...

þriðjudagur, október 18, 2005

Judas í Afríku...

Ég var búinn að minnast á að við fórum í mótorhjólaferð helgina sem við gistum á hótelinu á austurströndinni. Það var alls ekki planað en það æxlaðist þannig að það var ein stúlka sem spurði mig hvort ég gæti ekki keyrt svona mótorhjól, og sagðist nefnilega vera lúmsk "bæker drusla" og fyndist heví stuð að fá að sitja aftaná og bruna útí óvissuna.
Mér svelgdist á tyggjóinu og ég sagði "haa.. jújú..." því það ku vera ansi langt síðan ég hef gripið í fák slíkann. Ég reyndi að breyta um umræðuefni en það dugði ekki til svo það endaði þannig að við fórum að skoða og athuga prísa.

Eftir smá prump um prís eins og gengur og gerist var komist að niðurstöðu og mér boðinn reynsluakstur með gaurinn aftaná til að tryggja að allt væri í góðu standi áður en ég fengi það í hendurnar. Ferðin byrjaði vel og ég drap bara einu sinni á því en var fljótur að kenna kúplingunni um "ekki vanur þessari". Ferðinni lauk án stórslysa og gaurinn náði að tolla aftaná alla leiðina. Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið stressaður yfir því að fara með hana í ferð um mjóa og misgóða vegi með börnum, geitum, hænum og beljum á veginum, jæja...
Þar sem það var áliðið ákváðum við að taka túrinn daginn eftir og ég hélt áhyggjunum fyrir sjálfann mig og fékk mér bjór til að dreyfa huganum...

Daginn eftir fór ég að ná í hjólið á meðan að hún var að læra að kafa í sundlauginni á hótelinu og vannst því smá tími til að stilla jafnvægið og æfa "rock on" svipinn. Kellinn var ekki lengi að ná tökum á þessum Honda 250cc "krossara" og kom siglandi á afturdekkinu 15 min síðar og lagði beint fyrir utan hótelið með "rock on" grettu í andlitinu.

Við keyrðum þar sem leið lá inní þorp sem var um 15km frá hótelinu og sáum að þar bjó fólk svo sannalega ekki við sömu húsakynni og við á hótelinu rétt hjá. Meðfram aðalveginum var mikill fjöldi af leirhlöðnum húsum með mjög hreinlega sópaða leirstíga í kringum húsin, og mikið af börnum að leik fyrir utan.

Ég ákvað að taka af skarið og keyra inn einn mjóann leirstíginn til að komast aðeins inní þorpið til að geta skoðað aðeins betur húsakynni þeirra. Ég var ekki alveg viss um viðbrögð heimamanna við því að maður kæmi vaðandi inn á mótorhjóli inní þorpið svo ég gerði mig viðbúinn öllu og setti sem snöggvast upp "rock on" svipinn.

Það rusl var ekki lengi að detta af mér því er við fikruðum okkur rólega inn í þorpið byrjaði að safnast að okkur gríðarlegur fjöldi barna sem öskruðu "djambo, money...", og þá meina ég öskra. Ég fikraði mig aðeins lengra inn í þeirri von um að hrista ungviðið af mér, en við virkuðum eins og segull á öll leirhúsin og soguðum allt ungviðið úr húsum sínum og öll öskruðu þau hástöfum.

Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að gera í þessari stöðu svo við einhvernveginn hrökkluðumst út aftur og þurftum hreinlega að gefa vel í til þess að hrista af þrautseigustu villiapana sem sóttu að okkur.

Eftir að vera búin að jafna okkur á þessu öllu saman vorum við alveg miður okkar yfir fátæktinni sem við urðum vitni að, og ákváðum að við yrðum að koma aftur með eitthvað handa þorpsbúum. Við stoppuðum við grænmetis markað í vegakantinum og kipptum með ýmsu góðgæti. Ég fór með 1000Tsh (6Dkr) og gerði vægast sagt reifarakaup, því þegar ég lét manninn fá seðilinn ljómaði hann allur eins og hann hefði aldrei séð annað eins og byrjaði að dæla í pokana. Við enduðum með um 50 tómata og 30 banana, og mun það vera besti díll sem ég hef gert fyrr og síðar...

Þegar við keyrðum inní þorpið þá leið okkur eins og Jésú þegar hann labbaði á vatninu og er við drápum á hjólinu "leyfðum við börnunum að koma til okkar". Þetta var mögnuð tilfinning en samt svo fölsk eitthvað, því þetta var svo svívirðilega lítill peningur og maður fékk virkilega á tilfinninguna að maður gæti nú gert eitthvað meira en þetta með alla þá peninga sem maður hefur í höndunum.

Þessi lífreynsla setti ýmislegt í vinnslu og er að vænta niðurstaðna áður en haldið verður aftur til Danmerkur, það verður spennandi að sjá hvað gerist...

sunnudagur, október 16, 2005

Lífsmark...

Hæ og Hó...

Ég vildi bara rétt láta vita af mér og tilkynna hérmeð að ég er á lífi.

Sandra er búinn að vera í heimsókn hjá mér síðustu tvær vikur og hefur maður verið að snúast í ýmsu hressandi og ekki gefið sér tíma til að láta heyra í sér, sem er náttúrulega dónaskapur og agalega hvimleitt...

Við áttum alveg frábærar tvær langar helgar á meðan hún var hérna.

Fyrstu helgina fórum við á austur strönd Zanzibar og gistum á frábæru fimm stjörnu hóteli sem kallast Bluebay Beach. Á þeim tíma mesgsugum við staðinn og náðum að okkar mati að gera allt sem okkur langaði til að gera. Við fórum í spa þar sem við vorum nudduð uppúr löðrandi olíu, leigðum mótorhjól og keyrðum um í þorpunum sem lágu stutt frá hótelinu, fórum að kafa við litla eyju við norður Zanzibar og nutum frábærs matar sem okkur bauðst á meðan dvöl okkar stóð. Ég hef aldrei séð jafn mikinn mat og upplifði ég í fyrsta skiptið óánægju yfir því að vera ekki með magafylli á við 200 kíló kvikindi, manni leið eins og maður væri að missa af svo miklu því það var ekki séns að smakka allan þennan mat...

Toppurinn á ísjakanum þessa helgina var hins vegar sá, að eitt kvöldið að mat loknum ákváðum við að taka stutt kalaha (spil með kúlum) á meðan að við kláruðum rauðvínið. Við töldum okkur bæði kunna reglurnar þar sem við höfðum bæði drepið tímann í strætó með því að spila þetta spil í símanum okkar.

Við komumst fljótlega að því að spilið var ekki alveg eins einfalt og við héldum og fékk ég því þá snilldar hugmynd að leita aðstoðar hjá starfsfólki hótelsins. Mér var bent á að ræða málið við einn af "Masai" varðmönnunum sem stóðu fyrir utan hótelið því þetta væri spil sem þeir spiluðu mikið. Þetta fannst mér spennandi enda hafði ég ekki verið svo heppinn að ræða við einn slíkann áður svo ég stökk til og fékk einn æði viljugann til að sýna okkur spilið. Það voru blendnar tilfinningar að sitja með honum við spilið og hafði maður það á tilfinningunni að maður mætti ekki taka vörðinn frá störfum sínum lengi.

Hann átti því miður allan tímann í heiminum og ákvað að byrja á því spila eitt snöggt spil við mig (ca.25 min) þar sem hann sagði mér hvað ég átti að gera sem orsakaði það að hann vann með miklum yfirburðum. Við skildum ekki neitt í spilareglunum og þegar við sögðum honum það, þá hló hann hátt og sagði á sinni döpru ensku "I just want to kill you", as in, rústa mér í spilinu. Þetta var alls ekki fyndið og við bæði orðin snarringluð á því að reyna að skilja þennan mann.

Þetta var ekki búið þarna, því hann lét okkur spila annað spil á móti hvoru öðru þar sem hann fékk að stjórna flestum aðgerðum líka og margítrekaðar tilraunir okkar til að þakka honum fyrir hjálpina lét hann sem vind um eyru þjóta og sat sem fastast. Þegar við loksins náðum að kveðja hann, fór fram á að kennslunni yrði haldið áfram næsta kvöld... "ha, jaaaaááá.... kannski...".

Ég skil ekki enn hvernig við gátum komist inní svona hrikalegann kalaha vítahring með þessum geðveika kennara. Ég verð eitthvað að kynna mér betur þessa masai menn, því þeir komu ekki alveg nógu vel útúr þessari skoðanakönnun. Við sáum hann aldrei aftur...

Seinni helgina fórum við til Dar er Salaam (Tanzania) þar sem við fórum að sjá hvernig tréfígúrur eru búnar til og fengum í leiðinni heimsmeistaratitilinn í prútti (að okkar mati)...

Stundum varð maður hissa þegar maður í nettu flippi bauð 6 Dkr og maður fékk móttilboð uppá 24 Dkr... (ekki meira...) Þá átti maður svolítið erfitt með að halda áfram að prútta af einhverri alvöru en maður lét sig hafa það enda er ég ekki það efnaður að geta greitt niður skuldir þriðja heimsins hvort sem er...

Svo áður er ég vissi var hún flogin heim aftur og við tekur vinnuálag í auknu mæli þar sem Christian (Site manager) er kominn á svæðið og allt á að fara í swing... Nenni ekkert að vinna eftir svona lúxus helgar...

Maður bítur í neðri vörina og vaknar hress í fyrramálið...

laugardagur, október 01, 2005

Veraldarvanur...

Loksins, loksins...

Í dag er fyrsti dagurinn i um það bil 5 vikur sem strákarnir eru lausir við það að (m)æla hafið bláa hafið. Við teljum okkur hafa mælt þetta út eftir okkar bestu getu og munum við hérmeð segja starfinu lausu. Ef það verður nokkurn tíman í umræðunni að skoða þetta eitthvað betur, þá munum við segja takk, en nei takk. Alveg erum við komnir með viðbjóðinn uppí háls og hlökkum til að ná heilastarfseminni aftur upp í full swing (hvað sem það nú er aftur...)

Því hlakka ég til að eiga seinnipart laugardags og allan sunnudaginn til þess að gera það sem hugann girnist (kynlíf...). Jú, ég á von á litlu saklausu fórnarlambi sem ætlar að taka að sér kynsveltann villiapa úr svörtustu Afríku, Zanzibar... Þetta litla grey en nefnilega væntanlegt til Zanzibar á morgun kl 11:15 og mun vera "stand by" næstu 2 vikurnar.
Strákurinn er með ýmislegt uppí erminni og mun sjá til þess að okkur mun ekki leiðast, og þar sem þetta er mikið á huldu mun ég segja betur frá því sem tekið verður sér fyrir hendur í næstu þáttum af Yrflinum. Eins og hörðustu aðdáendur Yrfilsins eflaust vita, þá hefur oftar en ekki farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér að spá fyrir því sem ég ætla mér að gera á frídögum mínum, og mun ég því segja í sönnum hressleika að það verður gert "ekkert"...

Neytendahornið Yrfill:

Það er margt mjög ódýrt hér á Zanzibar og blöskrar manni oft hvað hlutirnir kosta miðað við það sem maður er vanur að borga á Íslandi. En það er smá "twist" í því að fara að versla hérna, og verður maður að sjóa sjálfann sig til og hlusta eftir raunverulegum prís á hlutunum. Hérna er nefnilega nokkuð sem kallast "mzungu price" en það þýðir "verð hvíta mannsins" og er það ekkert launungarmál að hvíti maðurinn er að borga þrefalt og uppúr, meira en heimamenn fyrir sömu vöruna. Þeir eru búnir að átta sig á því hvíti maðurinn er vanur háu verðlagi og er því ónæmur fyrir því ef verðið er skrúfað upp þegar hann ætlar að versla. Það mundi því hjálpa manni mikið ef maður hefði einhverja hugmynd um hvað hlutirnir kosta, en hér eru engir verðmiðar eins og maður er vanur.

Ég get stoltur sagt frá því að ég brá mér í gær í strætó frá vinnu og heim, fyrstur hvítra manna á vinnusvæðinu. Mér fannst það alltaf vera heillandi að fá að taka þátt í sardínureyð um bæinn en eins og kannski sumir vita að þá er ekki farið eftir settum reglum um farþegafjölda á götum Afríku. Menn hanga útum hurðar og aftan á bifreiðum og maður hefur það oft á tilfinningunni að þeir kjósi frekar að hanga utaná bifreiðunum en að sitja inní þeim. Þessi sardínuför tók skemri tíma en ég gerði ráð fyrir og kostaði aðeins 300 Tsh (1000 Tsh = 6 Dkr) samanber ferð í taxa sem er okrað á manni fyrir 5000 Tsh, góður díll þar...
Alveg afbragð, og mun ég nota þetta meira í framtíðinni því mér er afar illa við að vera tekinn í þurrt sveiið, þó að maður verði stundum að sætta sig við það...

Ég er einnig búinn að komast að því að setningin "how mutch" skilst á swahili sem "ég er hálfviti, viltu ekki taka peningana mína" og reyni ég eftir fremsta megni að komast hjá því að nota hana. Þetta sannaði ég einn góðann veðurdag á markaðnum niðrí Stone Town, en þar er hægt að fá allt á milli himins og jarðar. Ég fór til að kaupa eitthvað snakk handa mér og Stoffer og lagði af stað með 500 Tsh í klinki og ákvað að sjá hvað ég gæti fengið fyrir það. Ég beitti þeirri taktík að segja það sem mig langaði í og rétti bara þögull fram hendina með klinkinu í, og lét þá taka peningana úr hendinni á mér. Þetta virkaði svona líka afbragðs vel og ég kom fegins hendi með tvo popp poka, tvær safaríkar appelsínur (afhýðaðar) og einn klassa af vínberjum... fyrir um 30 krónur íslenskar... Kellinn alveg kominn meðidda...

Frekari þróun mín í að afnema "mzungu price" í Afríku verður fylgt hart eftir og munu lesendur fá nýjustu brellur sér að kostnaðarlausu í næstu þáttum...