Yrfillinn á Zanzibar

þriðjudagur, september 13, 2005

Ekkert...

Það var alveg unaðslegt að gera bara ekki neitt á sunnudaginn. Það var eitthvað meira og betra en ég hafði nokkurn tímann getað ýmindað mér. Ég er búinn að ákveða að héðan í frá mun ég gera ekkert alla þá sunnudaga sem eftir eru hér á Zanzibar.

Við Stoffer brugðum okkur í aðgerðarleysinu að fyrstu mælingu lokinni með lokal bát yfir í eyju sem heitir Prison Island. Þessi eyja ku vera fræg fyrir landskjalbökur í tugatali og eru þær engin smásmíði. Við erum að tala um 60-70 cm. há kvikindi og voru þær alveg þokkalega hressar miðað við hæga yfirferð. Bátsstjóri okkar var svo vænn að kenna okkur skjaldbökubrellu sem fólst í því að klóra þessum miklu flykkjum innst í hálsakotinu undir skelinni. Þessi brella gerði það að verkum að þær fengu nautnafullt blik í þreytuleg augun og reistu sig uppá tá. Þetta var mjög fyndið og varð til þess að þessi brella var mikið notuð þennan eftirmiðdag.

Þegar brellan byrjaði að lýjast hugsuðum við okkur til hreyfings en við fengum því miður að vita að ekki mætti ganga um eyjuna því hún væri í endurbyggingu. Þar eru víst indverjar að verki og eru að byggja bongaló útum alla eyju og leggja stíga.

Það varð til þess að sumir fóru í sólbað en ég ákvað að ganga meðfram ströndinni til að skoða aðeins. Sú ganga endaði með því að ég gekk hringinn í kringum alla eyjuna, alveg einn í heiminum. Það var alveg æðisleg tilfinning að laumast svona og að vera í friðsæld og angandi blómalykt á þessari fallegu eyju...

Þegar við komum til Zanzibar aftur fórum við svo á markaðinn og versluðum fullt af alls konar ávöxtum sem ég hafði aldrei smakkað eða séð áður. Þessu ákváðum við að henda í kokkinn og láta hann elda einhverja snilld þar sem við værum ekki alveg vissir um hvað við værum með í höndunum. Til að toppa þetta keyptum við 8 mismunandi Zanzibar krydd, karrí og chilly til að poppa aðeins upp matreiðsluna hjá okkar meistarakokki. Þessum kaupum okkar tók hann fagnandi og galdraði fram alveg geðveikann kjúkling löðrandi í hressandi kryddblöndu.

Vá hvað þetta var góður dagur maður, alveg sá besti sem ég hef uppifað síðan að ég kom til Zanzibar...

Danir hafa, eins og þeir sem þekkja til, oft alveg einstaka sýn á það hvernig framkvæma eigi hlutina. Þeir eru mikið fyrir sólina þegar hún gefst og hefur maður rekist á margar bleikar og krumpaðar tuðrur í gegnum tíðina á öldum ljósvakans í Kaupmannahöfn...
Það virðist vera mikið issjú hjá þeim að ná sér í lit þegar tækifærið gefst og í sumum tilfellum, mergsjúga það. Danirnir sem ég er að vinna með hérna nota til dæmis aldrei sólarvörn og eru búnir að búa til kvarða til að geta rætt um áhrif sólarinnar á húðina. Einn hérna sagði til dæmis að hann fyndi nú fyrir því í skinninu að liggja 2 daga í sólinni, og þó að umræðan væri milli nokkurra manna þá kom orðið sólarvörn aldrei til spilanna.

Stoffer notar sömu pólitík, og segist ekki geta fundið útúr því að nota svoleiðis dæmi, það sé honum einfaldlega ofviða. Hann segir því lausn sína vera að hann taki vanalega út ein hamskipti í hvert sinn sem hann kemur til sólarlanda, og eftir það sé allt í góðu.
Það var víst samt ansi slæmt á Barbados eitt skiptið þegar hann var ásamt vinnufélaga sínum að mæla utandyra í steikjandi sól í fleiri daga í röð. Þá sagði hann sólina hafa verið svo rosalega að þeir hafi skipt um ham fjórum sinnum og átt erfitt um svefn þess vegna, en hvergi kom sólarvörn til sögunnar....
Kallinn toppaði svo kvikindið með að segja mér að hann hafi í einu blíðskaparveðrinu fengið löðrandi blöðrur á bakið vegna sólbruna... Við erum að tala um 2-3 stiga bruna...

Ussususss, leikurinn byrjaður, ég verð að hoppa...

5 Comments:

 • Sæll Orri.
  Ég ætla bara að þakka þér fyrir skemmtilegar frásagnir og hvet þig til að halda áfram. Þetta er svo ólíkt því sem við eigum að venjast.Ég er smá forvitin að vita hvað Stoffer heitir fullu nafni.
  Kveðja
  Gunna Sjana

  By Anonymous Nafnlaus, at 9:59 e.h.  

 • njóttu ævintýrisins frændi, sit hér í kvefpest og hefði ekkert á móti því að klóra risaskjaldböku í staðinn. Hvað með myndir? Býður tæknin upp á það?

  By Anonymous Nafnlaus, at 8:58 f.h.  

 • Takk fyrir það, ég hef líka mjög gaman af þessu sjálfur...
  Maðurinn heitir Jens Christoffer Butenschøn Larch og nei, hann er ekki í eiturlyfjunum... Hehe...

  By Blogger Yrfillinn, at 12:15 e.h.  

 • Greyið kellinn...
  Ég er að bíða eftir tækifæri á að uppfæra heilabú til þeirra framkvæmda, þetta fer að detta inn.
  Láttu þér batna gamli...

  By Blogger Yrfillinn, at 12:19 e.h.  

 • þá er ég loks komin il íslands og lofa þér vinur að fara uppfæra heimasíðuna um boltann betur. Veit að menn leita huggunar í orðum annarra þegar illa gengur

  By Anonymous Nafnlaus, at 11:04 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home