Yrfillinn á Zanzibar

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Salthnetur...

Sólarhringurinn er kominn í hönk hjá okkur Stoffer. Við erum komnir með það skemmtilega verkefni að mæla flóð og fjöru við höfnina í hvert skipti sem það á sér stað á Zanzibar, í heilann mánuð. Þar sem þetta fyrirbæri kemur fyrir allt að 4 sinnum á sólarhring þýðir það að við verðum að vakna á nóttunni til að verða viðstaddir. Við förum t.d. núna í kvöld kl. 21:17 og svo aftur í nótt kl 3:20 og svo þrátt fyrir allt mætum við eins og hver annar kl 6:30 í vinnuna eins og við erum vanir.
Þetta gerum við til að miða við tölur frá tveimur mismunandi stofnunum svo við vitum hvaða tölum við getum farið eftir. Þetta er nauðsynleg data fyrir okkur þar sem við komum til með að vera mjög háðir flóði og fjöru við vinnu á höfninni.

Mig langar að senda "shout out" til allra þeirra sem eru búnir að tala um að koma í heimsókn hingað á Zanzibar. Áður en ég lagði af stað varð ég var við mikinn áhuga frá hinum og þessum sem lýstu áhuga á því að koma í heimsókn og voru hressir. Ég var iðinn við að skrifa niður bókanir og var farinn að sjá fram á mikla aðsókn og hélt að ég þyrfti að fara fram á sér húsnæði til að hýsa alla sem vildu koma. Svo í öllum hamagangnum var það einn ágætur maður sem benti mér á að svona væri þetta alltaf og hann sagði orðrétt við mig "það kemur enginn". Ég gat nú ekki annað en brosað því ég sá það að það væri líklega ekki langt frá sannleikanum.
Því væri hressandi að fá að vita hvernig staðan er á mönnum, er eitthvað að gerast eða hvað?...

Já, maður er farinn að finna smörþefinn af því hvernig það er að vera "en dum ingeniør". Maður er vanur því að vera að vera að vinna meðal verkamannanna og vera undir sama hatti og þeir. Til að byrja með var ég hress, og einn af þeim, ef svo má segja, því ég þurfti að hjálpa til við að koma vinnuplássinu í stand svo að allt gæti farið að rúlla.
Núna er ég eiginlega alfarið fluttur inná survey department þar sem ég og Stoffer erum búnir að koma okkur vel fyrir með 2 skrifborð og hvor sinn kaffibolla. Þetta fer skakkt ofaní verkalýðinn, sem með sínum beru höndum fær hlutina til að gerast. Ég er oft búinn að vera sakaður um að gera ekki rassgat og sitji bara á rassgatinu, sem er reyndar rétt því ég er ekki búinn að ná það góðum tökum á AutoCad að ég geti unnið á það á hlaupum.
Einn daginn þegar ég vogaði mér að láta sjá mig um miðjann daginn í kaffihorninu okkar úti á vinnusvæði fékk ég að heyra það að ég gæti bara snáfað inná skrofstofu. Ég neyðist til að taka þessum viðbrögðum sem miklum söknuði sem ég get í raun skilið, því fer þar góður maður í ginið á hugsauðastéttinni sem gerir ekkert allan daginn...
Þetta er búið að vera svolítið skrítinn tími undanfarið og mér líður eins og ég sé að snúa bakinu við einhverju sem mér þykir mjög vænt um og að það sé engin leið til baka þó mig langi til þess.
Veriði sælir drengir, ég veit að þið getið þetta án mín...

Ég varð fyrir óþægilegri lífsreynslu um daginn er ég rölti um höfnina og virti glaður í bragði fyrir mér mikinn mannauð sem var að koma frá Dar Es Salem eða "Dar" sem það er kallað í daglegu tali. Þarna var fólk með allan andskotann með sér, lifandi hænsn, börn, banana og geitur. Fólk er líka með stórar ferðatöskur með sér og eru eins og maður hefur séð í sjónvarpinu með þetta allt saman á hausnum. Eitt þótti mér ansi skondið því þó að ferðatöskurnar séu risastórar og búnar þeim handhæga hjólabúnaði sem flestar ferðatöskur hafa í dag aftrar það ekki afríkubúanum að troða töskunni oná hausinn á sér. Mig dauðlangaði að stoppa fólk og benda því á þessa nýjung, en þar sem málþröskuldurinn er enn það stór, treysti ég mér ekki í það...
Geiturnar náðu líka athyggli minni enda fyrirbæri sem ekki finnst á mínum heimaslóðum. Þær voru ekki háar í loftinu, en vógu það upp með því að hafa hangandi hnetur á við ég veit ekki hvað. Þetta varð til þess að brosið fölnaði af andliti mínu, því mér var litið á neðri hluta líkama míns, því þennan dag var ég í hjólabuxunum mínum. Þetta varð til þess að í dag geng ég aðeins í víðum buxum með háa sokka og reyni að halda mig frá geitunum...

"Big up" fyrir henni Söndru lúffukind sem er búin að panta sér far til Zanzibar þann 30 sept. Þá verður loksins hægt að bralla hressandi hluti með fólki af sínu sauðhúsi...

4 Comments:

 • Var eimmitt að tjekka á flugi þarna úteftir :) ...ekki veist þú um einhver ódýr flugfélög sem fljúga - eða allavega flugfélög..?? ..hvernig komst þú þarna suður..?

  By Blogger Dísa Rós, at 7:21 e.h.  

 • Vá, var að vona að enginn hafi lesið þetta uppkast mitt, en ég er búinn að laga þetta núna, ég þurfti að skjótast til að mæla og draslið bara publishaði...
  Það ódýrasta sem ég hef heyrt er 8 þús. danskar og ég held að það sé KLM Royal Dutch airlines sem ég fór með. Ég flaug til Amsterdam, Nairobi og Zanzibar. Þeir sem vita betur eru vinsamlegast beðnir um að ausa úr viskubrunni sínum...

  By Blogger Yrfillinn, at 7:30 e.h.  

 • sæll frændi, rigning og rok hér og lítið um geitur... haltu áfram skrifunum, þau eru fastur liður í tilverunni!

  By Anonymous Nafnlaus, at 8:22 f.h.  

 • Takk fyrir hvartinguna, ég mun gera mitt besta...

  By Blogger Yrfillinn, at 7:53 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home