Yrfillinn á Zanzibar

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Salthnetur...

Sólarhringurinn er kominn í hönk hjá okkur Stoffer. Við erum komnir með það skemmtilega verkefni að mæla flóð og fjöru við höfnina í hvert skipti sem það á sér stað á Zanzibar, í heilann mánuð. Þar sem þetta fyrirbæri kemur fyrir allt að 4 sinnum á sólarhring þýðir það að við verðum að vakna á nóttunni til að verða viðstaddir. Við förum t.d. núna í kvöld kl. 21:17 og svo aftur í nótt kl 3:20 og svo þrátt fyrir allt mætum við eins og hver annar kl 6:30 í vinnuna eins og við erum vanir.
Þetta gerum við til að miða við tölur frá tveimur mismunandi stofnunum svo við vitum hvaða tölum við getum farið eftir. Þetta er nauðsynleg data fyrir okkur þar sem við komum til með að vera mjög háðir flóði og fjöru við vinnu á höfninni.

Mig langar að senda "shout out" til allra þeirra sem eru búnir að tala um að koma í heimsókn hingað á Zanzibar. Áður en ég lagði af stað varð ég var við mikinn áhuga frá hinum og þessum sem lýstu áhuga á því að koma í heimsókn og voru hressir. Ég var iðinn við að skrifa niður bókanir og var farinn að sjá fram á mikla aðsókn og hélt að ég þyrfti að fara fram á sér húsnæði til að hýsa alla sem vildu koma. Svo í öllum hamagangnum var það einn ágætur maður sem benti mér á að svona væri þetta alltaf og hann sagði orðrétt við mig "það kemur enginn". Ég gat nú ekki annað en brosað því ég sá það að það væri líklega ekki langt frá sannleikanum.
Því væri hressandi að fá að vita hvernig staðan er á mönnum, er eitthvað að gerast eða hvað?...

Já, maður er farinn að finna smörþefinn af því hvernig það er að vera "en dum ingeniør". Maður er vanur því að vera að vera að vinna meðal verkamannanna og vera undir sama hatti og þeir. Til að byrja með var ég hress, og einn af þeim, ef svo má segja, því ég þurfti að hjálpa til við að koma vinnuplássinu í stand svo að allt gæti farið að rúlla.
Núna er ég eiginlega alfarið fluttur inná survey department þar sem ég og Stoffer erum búnir að koma okkur vel fyrir með 2 skrifborð og hvor sinn kaffibolla. Þetta fer skakkt ofaní verkalýðinn, sem með sínum beru höndum fær hlutina til að gerast. Ég er oft búinn að vera sakaður um að gera ekki rassgat og sitji bara á rassgatinu, sem er reyndar rétt því ég er ekki búinn að ná það góðum tökum á AutoCad að ég geti unnið á það á hlaupum.
Einn daginn þegar ég vogaði mér að láta sjá mig um miðjann daginn í kaffihorninu okkar úti á vinnusvæði fékk ég að heyra það að ég gæti bara snáfað inná skrofstofu. Ég neyðist til að taka þessum viðbrögðum sem miklum söknuði sem ég get í raun skilið, því fer þar góður maður í ginið á hugsauðastéttinni sem gerir ekkert allan daginn...
Þetta er búið að vera svolítið skrítinn tími undanfarið og mér líður eins og ég sé að snúa bakinu við einhverju sem mér þykir mjög vænt um og að það sé engin leið til baka þó mig langi til þess.
Veriði sælir drengir, ég veit að þið getið þetta án mín...

Ég varð fyrir óþægilegri lífsreynslu um daginn er ég rölti um höfnina og virti glaður í bragði fyrir mér mikinn mannauð sem var að koma frá Dar Es Salem eða "Dar" sem það er kallað í daglegu tali. Þarna var fólk með allan andskotann með sér, lifandi hænsn, börn, banana og geitur. Fólk er líka með stórar ferðatöskur með sér og eru eins og maður hefur séð í sjónvarpinu með þetta allt saman á hausnum. Eitt þótti mér ansi skondið því þó að ferðatöskurnar séu risastórar og búnar þeim handhæga hjólabúnaði sem flestar ferðatöskur hafa í dag aftrar það ekki afríkubúanum að troða töskunni oná hausinn á sér. Mig dauðlangaði að stoppa fólk og benda því á þessa nýjung, en þar sem málþröskuldurinn er enn það stór, treysti ég mér ekki í það...
Geiturnar náðu líka athyggli minni enda fyrirbæri sem ekki finnst á mínum heimaslóðum. Þær voru ekki háar í loftinu, en vógu það upp með því að hafa hangandi hnetur á við ég veit ekki hvað. Þetta varð til þess að brosið fölnaði af andliti mínu, því mér var litið á neðri hluta líkama míns, því þennan dag var ég í hjólabuxunum mínum. Þetta varð til þess að í dag geng ég aðeins í víðum buxum með háa sokka og reyni að halda mig frá geitunum...

"Big up" fyrir henni Söndru lúffukind sem er búin að panta sér far til Zanzibar þann 30 sept. Þá verður loksins hægt að bralla hressandi hluti með fólki af sínu sauðhúsi...

laugardagur, ágúst 27, 2005

Hið ljúfa líf...

Ja hérna hér... Bara kominn laugardagur aftur... Og ég bara búinn að vera vel lélegur að blogga sé ég hér á öllu, jæja reynum að bæta úr því...

Já maður er fljótur að venjast hinu góða lífi hér. Hver dreymir ekki um að geta farið út að borða þegar maður vill og fengið sér þann rétt sem hugann girnist þá og þegar. Þessu mátti maður venjast þegar við komum hér til Zanzibar, því ekki var búið að ráða neinn kokk og því var ekki um neitt annað að ræða.
Það er samt eitt sem er mjög þreytandi þegar maður fer út að borða hér, því það er alveg 2ja tíma prosess að fara í bæinn, panta, borða og fara svo heim aftur. Afríkanarnir eru nebblega alveg frægir fyrir að taka það rólega, enda enginn asi hér á ferð, því eins og kannski sumir vita er meðalaldur fóks hér á Zanzibar 42-44 ár. Hvort sem það er pöntuð samloku eða heill humar í hvítlaukssósu er biðtíminn eftir mat alltaf 45-60 minútur. Ekki hef ég fundið neina skýringu á þessu öllu saman en svona er þetta bara. Það sama á við þegar út á vinnusvæðið er komið...

Svo yndislega vill samt til, að við erum búnir að fá til okkar kokk sem smyr fyrir okkur samlokur í hádeginu og eldar fyrir okkur fjölbreyttar, dýrindis kvöldmáltíðir á hverju kvöldi, nema í kvöld. Við höfum nefnilega ákveðið að gefa kellinum frí á laugardögum svo hann geti farið heim og klappað konnunni örlítið (rausnarlegir haaa)...
Þannig að við neyðumst því til þess að fara út að borða í kvöld, sem ég hreinlega nenni ekki sökum þessa mikla biðtíma. Svona verður maður fljótt vanþakklátur og viðbjóðslegur...

Talandi um það, þá er einn sem býr hjá okkur sem er búinn að búa og vinna fyrir Pihl í Afríku í 25 ár (alveg eins og í 89 á stöðinni...). Hann er greinilega orðinn vel steiktur af allri þessari fjarveru frá heimalandi sínu því hann getur fundið upp á því að nöldra í kaffinu yfir því að hann hafi fengið vitlausa nærbuxur inn á herbergið sitt, eftir að hún Anna litla var búin að þrífa af okkur. Honum fannst sko andskotinn að hún gæti nú reynt að muna þetta, hún fengi nú borgað fyrir það, andskotakornið...
Þeir eru nú annars ansi gjarnir á að nöldra örlítið yfir hinu og þessu bulli hérna sumir hverjir, og svo eru þeir svo miklir aumingjar að þeir segja aldrei neitt við þá sem kannski geta gert eitthvað í málinu. Þeir tala um hvað þetta sé nú ómögulegt, og svo þegar haldinn er fundur, eins og í lok vinnudagsins í dag, segja þeir ekkert og eru bara eins og aular...

Jæja reynum nú að æsa okkur ekki alveg yfir svona löguðu.

Já, það er farinn að detta smá hversdagsleiki inn í tilveruna hér, í fyrsta skiptið, og menn farnir að kynnast aðeins. Maður skynjar að maður er af öðru bergi brotinn en sumir af vinnufélögunum, því þetta eru gaurar sem eru búnir að vera að vinna allt sitt líf og eiga það oft til þegar komið er heim að halda bara áfram að tala um vinnuna og segja gamlar vinnusögur. Það verður því oft uppi fótur og fit þegar til dæmis er sögð er saga af 32 tonna gröfu sem sprengdi glussaslöngu á krítiskum tímapunkti í miðju aksjóni og allt var að verða vitlaust.
Einum tókst meira að segja að tala um það hvernig á að búa til alvöru fríkadellur í heilar 10 mínútur. Við erum að tala um uppskrift frá Jótlandi og Sjálandi... Sláandi munur þar á ferð get ég segt ykkur... Ég höndlaði ekki að bíða eftir endanum og neyddist til að færa mig um set undir þeirri frásögn.

Annars kemur okkur nú bara ágætlega vel saman strákunum og er verið að tala um að smella sér útí eina af þeim fjölmörgu eyjum sem umkringja Zanzibar á morgun. Þar ku vera að finna hinar frægu risaskjaldbökur, sem gæti verið gaman að skoða.

Við skulum vona að mér takist betur á morgun að njóta frísins, því síðasti frídagur fór í algjört rugl hjá mér með malaríuvesenið.

Jæja það er best að drífa sig að skrúbba pung svo maður sé klár fyrir hina löngu kvöldmáltíð.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Dagur 4...

Í dag gerði ég heiðarlega tilraun til að mæta í vinnuna því ég hafði átt aldeilis prýðilega nótt og sofið vært. Sú tilraun entist ekki nema í 35 minútur því áður en ég vissi af þá átti ég erindi við taflborðið. Þar sem verkefnið okkar er ekki alveg komið í full swing þá eru taflaðstæður eftir evrópskum standard ekki til staðar. Það er verið að vinna að því eins og stendur...
Ég vissi að það mundi kosta fyrirtækið mikinn tíma og peninga að borga fyrir sáluhjálp mína ef ég mundi voga mér inná taflsvæði heimamanna á höfninni svo ég ákvað að drífa mig heim. Sjúkdómseinkenni eru líka hitaköst sem eiga til að gjósa upp af og til, sem ég vil frekar komast yfir í rólegheitum í einhverju móki heima hjá mér.

Þegar ljóst er að upptök sjúkdóms míns eru að finna hjá litlu pirrandi flugudrasli er ég búinn að finna mér minn heilaga stað í húsinu. Ef maður ætlar sér að horfa á sjónvarpið frammi með strákunum þá ber manni að búa sig vel því moskítóið reynir endalaust að ná sér í próteinskammt til að ala buru sína. Viðbrögðin eru því oft öfgakennd þegar maður stendur eina að verki eða heyrir óþolandi ððððð..... hljóð við eyrað sitt þegar maður er að reyna að fylgjast með einhverri bíómynd.
Undanfarið hef ég því í veikindum mínum legið mikið undir moskítónetinu mínu í mínum litla 2m*2m*2m moskítófría heimi. Þar er pláss fyrir mig, tölvuna mína og hátalarana mína, hvað er hægt að biðja um meira... (ok. ein tjelling á kentinum væri kannski líka hressandi...)

Að lokum langar mig til að senda baráttu kveðjur til minna manna þar sem þeir eiga á brattann að sækja í úrvalsdeildinni þessa dagana. Langar mig því hérmeð að prentfesta efasemdir mínar og tilhlökkun til að sjá útkomu þessa tímabils. Ég mun að sjálfsögðu standa með mínum mönnum en það þarf mikið að gerast ef þeir ætla sér að vinna þrennuna eins og þeir eru að spila að dag,
við sjáum hvað setur...

mánudagur, ágúst 22, 2005

The big M...

Eins og lesa mátti á mínu síðasta bloggi var mikil spenna fyrir að eiga loksins frídag á sunnudaginn.

Við fórum út að borða og fengum fínan mat, og eftir matinn fann ég fyrir gríðarlegri löngun til að leggja mig eftir svona ágætis mat. Við röltum yfir á hótel í grenndinni til að skoða okkur um. Við sundlaugina blasti girnilegur sólbekkur með mjúku áklæði sem ég gat hreinlega ekki staðist og lagðist útaf og lyngdi aftur augum. Strákarnir ákváðu að fá sér einn léttann á næsta skemmtistað og spurðu hvort ég ætlaði með. Það fór ansi vel um mig svo ég sagði "við sjáumst á morgun". Heilum 45 mínútum síðar er pikkað í öxl mína og ég spurður á hvaða herbergi ég byggi, ég var hálf ruglaður og sagðist mundi fara út eftir 5 mínútur.
Ég fór svo og hitti strákana á Reggay Night stutt frá, og þar kenndi ímissa illgrésa af fólki með feita dredda sem dönsuðu með glæsibrag, þar sem takturinn var beislaður á þann máta sem ég hafði aldrei séð fyrr...
Ég var enn örlítið slæptur eftir lúrinn og ákvað því eftir að mér var boðin jóna á 500 skildinga (30Íkr.), að nota tækifærið og drífa mig heim með Stoffer og vera bara ferskur fyrir ferðalag okkar norður á bóginn.

Um miðja nótt vakna ég svo við það að mér er ÍS-kalt og fer framúr til að klæða mig betur. Það sem eftir var nætur var ég í svitamóki og náði ekkert að sofa. Var þetta orðið svo slæmt að ég var byrjaður að bölva lakinu fyrir að vera allt of hlýtt sem ekki hafði komið fyrir áður.
Sem betur fer var rannsóknum lokið...
Hálf tussulegur ákvað ég að druslast með í okkar exotic jeppaferð um viðbjóðslega vegi og fátæk börn sem ýmist öskruðu "money..." eða "djambo" þegar við keyrðum framhjá.
Þremur árum seinna komumst við á leiðarenda og það eina sem ég gat gert var að sötra smá súpu og leggja mig á bekk þangað til strákarnir ákváðu að leggja af stað. Ég var alveg ágætlega í hönk og hlakkaði til að koma heim aftur.
Ég talaði við hjúkkuna okkar þegar ég kom heim og sagði henni allt af létta. Við ákváðum að bíða til morguns og sjá hvort þetta mundi lagast.
Ég upplifði nákvæmlega eins nótt og þá fyrri, nema að við bættist hressandi slepjukenndur aftansöngur...
Um morguninn fór ég svo til læknis og hann sagði mér eftir örsnögga rannsókn að ég væri með Malaríu... Glæsilegt sagði ég þá, og við tókum eina netta, háa fimmu.
Læknirinn sagði mér svo að ég þyrfti ekki að óttast því að með ákveðnum pillum væri þetta yfirstaðið eftir 5 daga. Mér létti, og ég dró fimmuna til baka.

Ég er því heima fyrir í dag og er að vonast til að vera orðinn hitalaus á morgun því aumingjastimpillinn er handan við hornið ef ekki verður spýtt í lúku á næstunni...

Kær kveðja frá manni sem í dag, hlær að Malaríu...

Sjáum hvort það verði jafn fyndið á morgun...

laugardagur, ágúst 20, 2005

Allt í lakið...

Er búinn að standa í bölvuðu basli síðustu 3 kvöldstundir með nettenginguna og er ég að vona að það sé búið mál. Maður er alveg ónýtur án nettengingar...

Er annars nokkuð ferskur núna því við erum komnir í okkar fyrsta alvöru helgarfrí. Ætlum að fagna því með að fara út að borða á Sweet and Easy sem er að mínu mati besti veitingastaðurinn á Zanzibar. Erum reyndar búnir að fara þangað nokkrum sinnum undanfarið og var talað um það síðasta laugardag á Sweet and Easy að gera þetta að föstum lið á laugardögum. Við það tækifæri komu upp einhverjir töffarastælar og var því pantað borð á laugardögum næstu 2 árin...
Svo ætlum við að prófa aðal diskóið á Zanzibar (að sögn heimamanna) eftir matinn, en ekki er mikið um alvöru skemmtistaði hér um slóðir.

Nú er ég búinn að vera að vinna mikið utandyra undanfarið og er ekki frá því að farið er að sjá á kellinum hér. Þar sem unnið er við sjóinn er ekki annað hægt en að vera búinn góðum sólgleraugum vegna mikillar endurspeglunar. Langar mig því að koma á framfæri þakklæti til þeirra sem gáfu mér svo yndisleg sólgleraugu að ég er laus við allar grettur á vinnusvæðinu...
Aftur á móti krefst ég skaðabóta fyrir að líta út eins og bjarnabófi þegar gleraugun eru tekin af, ef þið vitið hvað ég á við...

Þar sem ég ætla mér að sofa út á morgun ætla ég að koma með leiðarvísi fyrir þá sem eiga í vandræðum með að sofa með lak í útlöndum. Hver þekkir ekki þá tilfinningu að þurfa að fara að heiman frá sér með enga úlpu og án sængar sinnar. Svo þegar menn eru komnir á hótel einhver staðar og er úthlutað þunnu laki rennur á suma tvær grímur. Margir vita ekki hvernig á að athafna sig með eitthvað sem er svona lítið sem ekki neitt og sakna þyngdarinnar sem umvefur mann og heldur utan um mann á meðan að maður sefur.

Þetta vandamál hefur hérmeð verið leyst:

1. Byrjið á að skoða koddastöðu hotelhergerpis og ef fjöldi kodda er undir 3 stk. á mann, skal hringja undir eins á hergerpisþjónustu og redda fleirum.
2. Þegar lagst er til svefns ber að leggjast undir hið þunna lak. Höfuð skal leggjast á einn púða. Hinir tveir eru settir sitt hvorum megin meðfram hliðum svo miðja koddans nemi við annan hryggjarlið neðan frá.
3. Þessi staða býður uppá að þegar legið er á hlið er hægt að setja annan koddann á milli lappa til að menimera núning hnjáliða þegar legið er með lappir saman.
4. Til að gefa aukinn stuðning við hryggjarsúlu þegar legið er á hlið ber að ýta hinum koddanum ( það er þeim er liggur við bakið) þéttingsfast meðfram hryggnarsúlunni. Þetta hjálpar líka við stuðning ef aðeins eru í boði mjó rúm og minnkar því líkur á því að viðkomandi vakni á gólfinu, að morgni næsta dags.
5. Ef þessum leibeiningum er fylgt, minnkar sökknuður til sængar til muna og maður vaknar ógrátinn og hress.

Þessi hönnun tók þrjár vikur og er uppfinningamaðurinn sáttur við niðurstöður og hefur ákveðið að snúa sér að öðrum rannsóknum.

Fjölföldun heimiluð.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Lítil lúffa...

Já, í dag er stór dagur... Þórhallur "litli" bróðir og Andrea "Önd" hjúkona hans voru hvorki meira né minna að eignast stelpu í nótt. Ég frétti þetta í dag þegar hún móðir sæl hringdi og sagði mér allt af létta. Maður fékk nú bara löngun til að koma heim til að fá að athuga hvort hún líktist manni eitthvað... en néé, ekki hægt í þetta sinn. Mig langar hér með að óska þeim innilega til hamingju og vona að þeim farnist vel öllum saman.

Ég er annars með vondar fréttir fyrir harða aðdáendur Yrfilsins. Ég mun líklega bara ná að skrifa annan hvern dag, því við erum 4 menn um eina tengingu og verð ég því að leyfa strákunum líka að prófa netið við og við, en ég ætla að reyna að standa við þetta (við munum sjá hvað gerist...).

Í dag er ég búinn að vera á Zanzibar í nákvæmlega í 28 daga...

Það finnst mér vera ótrúlega mikið og svo sannarlega vel að verki staðið. Ég er búinn að vera að analisera heimamanninn örlítið, öðrum megin á meðan á minni dvöl stendur. Í fyrstu var ég skeptiskur og líkaði ekki hvernig þeir horfðu á mann án svipbrigða. Maður fór að velta því fyrir sér hvort þeim langaði að borða mig eða bara hvort minn langi hvíti líkami væri bara að gera góða hluti, eitthvað sem væri þá ekki í fyrsta skiptið... Þeir eru mikið fyrir það að kalla til manns og á tungumáli sem mér var ekki kunnugt fyrr (svahili var það víst...).
Undanfarið er ég búinn að komast að því að þeir eru allir saman að heilsa manni, og verða þeir gríðarhressir ef svarað er um hæl á svahili. "Djambo" segja þeir mikið, og ef þeir bregða fyrir sig slangri þá segja þeir "mambo" og þá á maður að segja "boa".
Ekki er mér búið að takast að ná mikilli sleipu í málinu en ég er kominn með símann hjá áströlskum kennara sem er víst hress og tekur mann gjarnan í netta kennslustund yfir bjór að kvöldi til. Það er alveg næst á dagskrá þegar ég sé færi á.

Ég er búinn að fá nýjann meðbúa hér í "Palace" eins og við kjósum að kalla það. Þetta er maður í eldri kanti og ku hann hafa svæsingu fyrir sérgrein. Tilkoma hans veldur því að hér í hús er kominn 50/50 meirihluti þegar um val á sjónvarpsefni er að ræða. Maðurinn segist nefnilega elska fótbolta, og eins og menn vita þá er það tónlist í eyrum mínum. Sú tólnlist var ekki viðvarandi lengi því maðurinn er ekki gáfaðari en svo að hann heldur með united... Hvernig gat hann klúðrað þessu svona strax á fyrstu metrunum (týpískur utd. maður...). Enn jæja það er enginn munur á kúk og skít svo ég mun því eftir fremsta megni reyna að leyna andúð minni á honum...

Lifi Arsenal...

mánudagur, ágúst 15, 2005

Mórallinn er allt...

Já nú er allt að gerast á vinnusvæðinu og verkið fyrst að komast í gang núna. Við erum að rífa allskonar búnað út úr gámum og svoleiðis vesen, ekki beint sú vinna sem ég hélt ég væri að fara að vinna hérna en, hey það þarf víst að starta verkinu áður en maður fær að gera eitthvað.
Er annast búinn að vera að vinna aðeins með öðrum tæknifræðingi að nafni Stoffer og hann alveg fínn gaur ekkert að kvarta yfir því. Hann er samt búinn vera með "the runs" undanfarna 2 daga og er ég því búinn að vera að vinna með vélaköllunum að koma öllu draslinu í gang eftir langa sjóferð.

Gamli góði vinnumórallinn farinn að detta sterkur inn þar sem lögmálið "sá sem er skítugastur er duglegastur" er í háveigum hafður. Við Kurt keppumst um titilinn því við viljum ekki fá kommentið "hvað þú verður nú að fara að gera eitthvað, það sér ekkert á þér"
Ég mundi segja að við Kurt værum svipað duglegir...

Nú, þar sem að Stoffer er búinn að vera vant við látinn hef ég verið iðinn við að reyna að kynnast okkar nýja vinnuafli, sem stendur af 15 heimamönnum. Þeir eru hressir enda gríðarlega ánægðir með að vera komnir með vinnu, því atvinnuleysið hér er gríðarlegt.
Á hverjum degi eru 10-20 heimamenn sem hanga i kringum okkur í von um að vera svo heppnir að fá vinnu, sem er ótrúlegt þar sem þeir fá einungis 15 dkr. fyrir daginn... Það er samt nóg til þess að eiga fyrir mat og einhverju meira býst ég við.

Það minnsta sem maður getur gert í þessari stöðu er að reyna að hressa uppá mannskapinn með ýmsu glensi, og hef ég því tekið uppá því að gefa mönnum gælunöfn, svona líka til að hjálpa mér að muna nöfnin þeirra (sem eru náttúrulega bara rugl...) Einn þeirra sagðist heita eitthvað með bwchs eða eitthvað svo ég greip það á lofti og snéri því uppí Bruce nokkurn Willis. Ég veit ekki hvort hann var að fíla það, en ég taldi þetta vera nokkuð öruggt svo ég skrifaði Bruce Willis á hanskana hans (hann var reyndar kominn í aðra hanska seinna um daginn... hmm..skrýtið...)

Mér líður eins og ég sé kominn út í eitthvað rugl hér, svo ég ætla að fara að segja þetta gott í bili, gaman að sjá respons i commentunum...

föstudagur, ágúst 12, 2005


Nettur gaur, á nettu chilli á Zanzibar Beach Hotel...

Sælir og blessaðir lesendur góðir.

Ég vona að breyting mín frá yrfill yfir í yrfillinn hafi ekki ruglað ykkur í ríminu... En tæknilegir örðugleikar við stofnun fyrri síðunnar orsökuðu þessar gríðarlegu sviptingar....

Já ég vil bara byrja á því að segja frá statusinum hér, er ekki viðeigandi að byrja á því.

Ég bý í einbýlishúsi með þremur gaurum sem vinna fyrir Pihl & Søn líka, þetta er mjög fínt hús með stórum herbergjum og einka baðherbergi (mjög gott...). Okkur er skaffað þjónustukonu sem sér um að þrífa húsið og fötin okkar sem er einkar erfitt að venjast... nei það er æðislegt, og ég ætla ekki að gera nein heimilisstörf þegar ég kem heim. Það er ekki hægt að breyta svona...
Svo vorum við að fá kokk sem eldar fyrir okkur kvölmatinn með glæsibrag get ég sagt ykkur. Ég sé nú þegar blikur á lofti um að einn meðbúi minn eigi ekki eftir að koma vel útúr svona matseld...
Til að sjá til að maður sofi vel á nóttunni er einn vagtmaður hérna fyrir utan hjá okkur með svaka langan hníf, við skulum bara vona að hann sé rétt prógrammaður svo að við komum allir heilir útúr því...

Við erum loksins búnir að fá alla gámana okkar og vélar úr skipinu, svo að verkefnið er að fara í full swing hvað á hverju. Er annars búið að vera frekar rólegt hjá okkur á meðan við vorum að bíða eftir skipinu svo að við erum búnir að hafa það mjög gott.

Það sem ég kem til með að gera hérna á Zanzibar er að hjálpa öðrum tæknifræðingi með að mæla út höfnina og setja hana inní modul system sem við munum búa til í AutoCad og fleira sem snýr að verkefninu. Svo mun ég víst flakka eitthvað á milli manna og fá að prófa hitt og þetta, þetta kemur bara í ljós...

Ok þar sem þetta er fyrsta bloggið ætla ég að óska mér til hamingju með það og að biðja ykkur um að vera dugleg að setja inn comment svo strákurinn sé ekki bara einn í þessu...

Sjáum hvort þetta virki....